Exótískur ævintýraréttur
Áttu afgang af vegankjúklingi eða öðru vegankjöti sem þú veist ekkert hvað þú átt að gera við? Hér kemur uppskrift að austurlenskum rétti sem tekur ekki nema 20 mínútur að búa til. Þó hér sé gefið upp ákveðið hráefni er um að gera að leika sér svolítið og nota það hráefni sem ykkur þykir best. Aðaltrixið við þennan rétt er sósan. Þegar hún er klár má bæta kjöti og grænmeti út í að vild.
Hráefni
- 2 msk olía
- 4 stk hvítlauksrif
- 1 stk grænn chili (ferskur)
- 2 cm engiferrót
- 2 stk tómatar
- 1 tsk kóriander
- 1 tsk turmerik
- 2 dl kókosvatn eða kókosmjólk
- 1 msk hnetusmjör
Aðferð
- Setjið olíu á pönnu.
- Afhýðið hvítlauksrif, merjið þau með hníf og skerið smátt.
- Þá er ferski chilli piparinn skorinn smátt. Ef þið viljið ekki hafa réttinn mjög sterkan þá skulið þið fræhreinsa hann. Annars má bara skera hann allan út í og setja á pönnuna.
- Afhýðið engiferrótina og skerið mjög smátt.
- Bætið kryddinu saman við. Þetta er látið malla á pönnunni í fimm mínútur. Gætið þess vel að hráefnið ofsteikist ekki heldur mýkist eingöngu.
- Þá eru tómatarnir skornir í bita og þeim bætt út á pönnuna ásamt kókosvatni.
- Að lokum er hnetusmjör sett á pönnuna og það hrært saman við sósuna. Þegar suðan er komin upp er sósan tilbúin.
- Síðan er það afgangs vegankjötið. Kjötið var skorið smátt. Einnig má bæta við ýmsum öðrum afgöngum eins og kartöflum og papriku.
Með þessu er gott að hafa hrísgrjón og salat.